Víkurgarður, einnig kallaður Fógetagarður, er einn elsti almenningsgarður í Reykjavík og þar má finna elsta gróðursetta tré borgarinnar.

Á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis fyrir aftan Landsímahúsið er Víkurgarður, einn elsti almenningsgarður í Reykjavík. Í dag er garðurinn að mestu hellulagður, meira torg en garður, en þar standa enn upprunaleg tré, meðal annars elsta gróðursetta tré í Reykjavík, silfurreynir sem var plantað sumarið 1884 og því hátt í 130 ára gamall.

Aldur: Víkurgarður var kirkjugarður frá fornu fari en ræktun hófst í garðinum árið 1883. Garðurinn varð eign Reykjavíkurborgar árið 1966.

Samgöngur:

Bílastæði eru við Aðalstræti, Kirkjustræti, Tjarnargötu og Túngötu. Gjaldskylda er virka daga frá 10-18 og laugardaga frá 10-16.
Strætóleiðir: 1-3-6-11-12-13-14. Stöðvar: Lækjartorg – MR – Ráðhúsið.
Þar er að finna: Kaffihús – Listaverk – Bekkir – Garðyrkja – Sögustaður – Áhugaverð tré.

Saga:

Víkurgarður stendur þar sem hin forna Reykjavíkurkirkja stóð all frá árinu 1200. Síðasta kirkjan þar var rifin 1789 en kirkjugarðurinn var enn í notkun til 1839.

Georg Shierbeck landlæknir fékk að nota garðinn til garðyrkju árið 1883 og stundaði þar ræktunartilraunir með matjurtir, blómjurtir, korntegundir, tré og runna. Minnismerki um Schierbeck var afhjúpað í Víkurgarði árið 1986.

Ásamt silfurreyninum var elsta gljávíði landsins plantað í garðinum 1884. Sagt er að frá honum sé kominn nær allur gljávíðir á landinu en hann féll í óveðri 1987.

Landsíminn eignaðist garðinn 1940 en hann fór undir umsjón Reykjavíkur árið 1966.

Garðurinn var endurskipulagður árin 1972-1973.

Heimildir:

Árni Óla. 1984-1986. Reykjavík fyrri tíma: sögukaflar. Annað bindi.
Bragi Bergsson. 2012. Almenningsgarðar á Íslandi. Ritgerð til MA-prófs. Háskóli Íslands, Hugvísindasvið.
Einar I. Siggeirsson. 1987. „Minnisvarði um Georg Schierbeck“. Garðyrkjuritið.
Ljósmynd: Bragi Bergsson.