Hallargarðurinn við Fríkirkjuveg er með fallegri almenningsgörðum í Reykjavík. Blómaskrúð, listaverk, glæsileg hús og útsýni yfir Tjörnina úr austri gefur garðinum tignarlega og hlýlega ásýnd. Jafnfram tengist hann óbeint Hljómskálagarðinum sem liggur skáhallt í mót hinum megin við Sóleyjargötu og Skothúsveginn.
Við Hallargarðinn stendur hið glæsilega hús Thors Jenssonar (betur þekkt sem Bindindishöllin) sem er timburhús í nýklassískum stíl og af mörgum talið eitt fegursta hús Reykjavíkur. Þá stendur Kvennaskóli Reykjavíkur og Listasafn Reykjavíkur við garðinn norðanverðann. Í garðinum er að finna ýmis listaverk til dæmis styttuna Adonis eftir Bertel Thorvaldsen.
Aldur: 1954.
Samgöngur:
Bílastæði við Fríkirkjuveg og Skothúsveg. Gjaldskylda virka daga kl. 10:00 – 18:00 og laugardaga kl. 10:00 – 16:00.
Strætóleiðir: 1-3-6-11-13-14. Stöð: Fríkirkjuvegur.
Þar má finna: Garðyrkja – Bekkir – Listaverk – Arkitektúr.
Saga:
Hús Thors Jenssonar reis árið 1908. Reykjavíkurborg eignaðist húsið 1963 og lengi vel voru þar til húsa skrifstofur íþrótta – og tómstundaráðs.
Hallargarðurinn var hannaður af Jón H. Björnssyni landslagsarkitekt á sjötta áratug 20. aldar. og var garðurinn formlega opnaður 18. ágúst 1954.
Höggmyndin Stúlkumynd (einnig kölluð Soffía) eftir Ólöfu Pálsdóttur stendur fyrir framan Kvennaskólann.
Höggmyndin Piltur og stúlka eftir Ásmund Sveinsson stendur ofarlega í garðinum.
Á sjöunda áratugnum kom til umræðu að Seðlabanki Íslands myndi rísa á lóð Hallargarðsins sem þá hefði verið eyðilagður. Hátt í 4.000 undirskriftir söfnuðust til að mótmæla þessum framkvæmdum og á endanum fékk Seðlabankinn lóð við norðanverðan Arnarhól í staðinn.
Samtökin Hollvinir Hallargarðsins voru stofnuð 2008.
Heimildir:
Bragi Bergsson. 2012. Almenningsgarðar á Íslandi. Ritgerð til MA-prófs. Háskóli Íslands, Hugvísindasvið.
Jón h. Björnsson. 1988. „Upphaf íslensk landslagsarkitektúrs“. Arkitektúr og skipulag.