Í huga margra Reykvíkinga er Austurvöllur hinn eiginlegi miðpunktur borgarinnar og hjarta Miðbæjarins.

Austurvöllur nefndist tún Víkurbóndans sem var austur af bænum, en Víkurbærinn (Reykjavíkurbærinn) var við Aðalstræti. Austurvöllur var besta tún Víkurbóndans, var hann mun stærri en hann er í dag. Völlurinn náði frá Aðalstræti austur að Lækjargötu og frá malarkambinum við Hafnarstræti að Tjörninni og var syðsti hluti hans nefndur Tjarnarvöllur. Þegar Innréttingarnar voru byggðar árið 1752 var Víkurbærinn rifinn.

Austurvöllur er í dag elsti almenningsgarður í Reykjavík og hefur frá upphafi verið einn vinsælasti og fjölsóttasti samkomustaður borgarbúa.

Á góðviðrisdögum fyllist Austurvöllur af fólki, bæði Reykvíkingum og ferðamönnum, sem njóta þess að sleikja sólina á grasflötinni, njóta matar og drykkjar á þeim fjölmörgu veitingahúsum sem liggja að vellinum og dást að þeim fallegu og sögufrægu byggingum sem standa við Austurvöll. Við suðurenda Austurvallar standa tvær af mikilvægustu byggingum á landinu, Alþingishúsið og Dómkirkjan. Meðal annarra bygginga má nefna Hótel Borg, Landsímahúsið og hús Reykjavíkurapóteks. Í miðju vallarins stendur stytta af Jóni Sigurðssyni. Austurvöllur er mikið notaður fyrir útisamkomur svo sem skemmtanir og ræðuhöld á hátíðadögum, tónleika og baráttufundi. Á hverju ári eru jólaljósin tendruð á Oslóartrénu sem stendur á Austurvelli yfir jólahátíðina.

Aldur: Upphaf Austurvallar má rekja til síðari hluta 18. aldar en núverandi svæði varð afmarkað með byggingu Alþingishússins árið 1881.

Samgöngur:

Bílastæði við Kirkjustræti, Kirkjutorg , Pósthússtræti og Tjarnargötu. Gjaldskylda virka daga kl. 10:00 – 18:00 og laugardaga kl. 10:00 – 16:00.
Strætóleiðir (1-3-6-11-12-13-14). Stöðvar (Lækjartorg – MR – Ráðhúsið).
Þar er að finna: Veitingastaður – Kaffihús – Listaverk – Bekkir – Garðyrkja – Sögustaður – Hátíðahöld.

Saga:

Austurvöllur var upphaflega hluti af túni Víkurbæjar.
Ekki var byggt á svæðinu sem nú er Austurvöllur í upphafi þéttbýlismyndunar í Reykjavík því landið þótti of blautt.
Stiftamtmaðurinn L. A. Krieger bannaði byggingar á vellinum á fjórða áratug 19. aldar til að halda opnu svæði fyrir borgarbúa inni í þéttbýlinu.
1796 var Dómkirkjan í Reykjavík vígð við suðausturhorn Austurvallar.
Lyfjabúð reis við Austurvöll 1833.
Nafnið Austurvöllur var formlega fest í sessi árið 1848.
Alþingishúsið reis 1881.
Milli 1902 og 1937 var Austurvöllur girtur af og lokaður fyrir almennri umferð.
1931 var styttan af Jóni Sigurðssyni sem áður var staðsett fyrir framan Stjórnarráðið komið fyrir á Austurvelli í stað styttu af Bertel Thorvaldsen sem var þar áður en sú stytta var færð í Hljómskálagarðinn. Athygli vekur að styttan af Jóni var með öllu ómerkt þar til á 200 ára fæðingarafmæli hans, árið 2011.

Heimildir:

Árni Óla. 1969. Gamla Reykjavík. Sögukaflar. Reykjavík, 1969.
Bragi Bergsson. 2012. Almenningsgarðar á Íslandi. Ritgerð til MA-prófs. Háskóli Íslands, Hugvísindasvið.
Georg Ólafsson. 1940. „Byggingarnefnd Reykjavíkur 100 ára“. Lesbók Morgunblaðsins, 28. júlí 1940.