Arnarhól þekkja allir Reykvíkingar en hóllinn trónir yfir Kvosinni og Lækjargötu í norðaustri. Af hólnum er fagurt útsýni yfir miðborgina og sundin.

Arnarhóll er gamalt bæjarstæði en nú er þar opið svæði með göngustígum og bekkjum. Efst á Arnarhól trónir eitt helsta kennileiti Reykjavíkur, styttan af Ingólfi Arnarsyni landnámsmanni í Reykjavík eftir Einar Jónsson myndhöggvara. Við Arnarhól norðan- og austanverðan standa ýmsar merkisbyggingar svo sem Þjóðmenningarhúsið, Seðlabanki Íslands, Hæstiréttur Íslands og bæði fjármála- og efnahagsráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið. Á Arnarhóli safnast fólk oft saman á hátíðisdögum (sérstaklega á Þjóðhátíðardaginn 17. Júní) og fylgist með tónleikum og annarri skemmtidagskrá.

Samgöngur:

Bílastæði við Hverfisgötu, Ingólfsstræti, Kalkofnsveg, Lindargötu, Lækjargötu, Sölvhólsgötu og Tryggvagötu. Gjaldskylda virka daga frá 10-18 og laugardaga frá 10-16.
Strætóleiðir: 1-3-6-11-12-13-14. Stöðvar: Harpa – Lækjartorg – MR.
Þar er að finna: Bekkir – Listaverk – Garðyrkja – Hátíðahöld – Merkilegar byggingar

Saga:

Á Arnarhóli var búskapur frá fornu fari en elstu heimildir um búsetu eru frá 16. Öld.
Búskapur lagðist niður á Arnarhóli árið 1828 og var býlið rifið skömmu síðar.
Jörðin Arnarhóll var færð undir land Reykjavíkur árið 1835.
Stytta Einars Jónssonar af Ingólfi Arnarsyni var vígð hátíðlega í febrúar 1924.
Tilvist Arnarhóls sem almenningsútivistarsvæði var fyrst skilgreind á skipulagi árið 1927.

Heimildir:

Bragi Bergsson. 2012. Almenningsgarðar á Íslandi. Ritgerð til MA-prófs. Háskóli Íslands, Hugvísindasvið.