Bakarabrekkan er gamalt heiti á Bankastræti en í dag er nafnið notað um grösuga brekkuna fyrir neðan Bernhöftstorfuna á horni Bankastrætis og Lækjargötu.
Bakarabrekkan setur mikinn svip á Miðbæinn. Ásamt túninu fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík og Mæðragarðinum myndar hún nær samfellda græna breiðu meðfram Lækjargötunni austanverðri. Styttan Vatnsberinn eftir Ásmund Sveinsson er í Bakarabrekkunni. Þar er einnig stórt útitafl með taflmenn eftir Jón Gunnar Árnason myndhöggvara.
Aldur: Fyrst skilgreind sem almenningsgarður 1943 en svæðið er mun eldra.
Samgöngur:
Bílastæði við Lækjargötu og Amtmannsstíg. Gjaldskylda virka daga frá 10-18 og laugardaga frá 10-16.
Strætóleiðir: 1-3-6-11-12-13-14. Stöðvar: Lækjartorg – MR.
Þar er að finna: Garðyrkja – Bekkir – Listaverk – Sögustaður – Veitingastaður – Kaffihús – Hátíðahöld
Saga:
Bakarabrekkan dregur nafn sitt af bakarí danska bakarans Tönnes Daníels Bernhöft sem var á Bankastræti 2. Bernhöftstorfan er einmitt nefnd eftir Bernhöft bakara.
Bakarabrekkan var fyrst skilgreind sem almenningssvæði á nýju skipulagi fyrir Reykjavík 1943.
Vatnsberinn eftir Ásmund Sveinson var flutt í Bakarabrekkuna úr Öskjuhlíð árið 2011. Upprunalega átti Vatnsberinn alltaf að vera í Bakarabrekkunni en sú staðsetning olli miklum deilum meðal bæjaryfirvalda sem og almennings.
Stytta af Friðriki Friðrikssyni presti og stofnanda KFUM og KFUK og Knattspyrnufélaganna Vals og Hauka eftir Sigurjón Ólafsson stendur neðst í Bakarabrekkunni. Styttan var reist 1954.
Bernhöftstorfan var friðuð árið 1979, tveimur árum eftir að húsin þar skemmdust mikið í bruna. 1981 var endurbyggingu Bernhöftstorfunnar lokið og veitingastaðurinn Lækjarbrekka opnaði.
Útitaflið var vígt 1981 og líkt og með Vatnsberann stóðu miklar deilur um staðsetningu þess en það átti upphaflega að vera á Lækjartorgi.
Heimildir:
Bragi Bergsson. 2012. Almenningsgarðar á Íslandi. Ritgerð til MA-prófs. Háskóli Íslands, Hugvísindasvið.