Um Viðey

Viðey skipar veglegan sess í hugum Reykvíkinga og hefur um árabil verið miðstöð menningar, náttúru og útivistar. Saga búsetu í Viðey má rekja aftur til Þjóðveldisaldar og var Viðey verið eitt helsta höfuðból landsins í mörg árhundruð. Síðan Reykjavík fékk Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju af gjöf hefur eyjan verið vinsæll viðkomustaður Reykvíkinga sem og ferðamanna. Þar er rekin fjölbreytileg þjónusta fyrir gesti af öllum aldurshópum árið um kring.

Hægt er að sérpanta leiðsagnir fyrir almenna hópa með því að senda tölvupóst á videy@reykjavik.is. Skólahópar geta fengið ókeypis leiðsögn með því að senda tölvupóst á safnfraedsla@reykjavik.is.

Nánari upplýsingar og viðburði og aðra starfsemi safnsins er að finna á borgarsogusafn.is.

Viðey heyrir undir Borgarsögusafn: Eitt safn á fimm frábærum stöðum.

GRUNNUPPLÝSINGAR

Stærð: 1,6 km2

Samgöngur:

Viðeyjarferjan gengur á hverjum degi til Viðeyjar frá Skarfabakka á sumrin en einungis um helgar á veturna. Sjá ferjuáætlun hér.

Bílastæði eru við Skarfabakka.

Strætóstoppitöð: Klettagarðar/Skarfagarðar.

Þar er: Veitingastaður – Kaffihús – Sögustaður – Gönguleiðir – Útsýnisstaður – Fuglaskoðun – Jarðminjar – Merkilegar byggingar – Listaverk – Listasýning – Leiksvæði – Fræðsluviðburðir – Hátiðahöld – Bekkir – Grillaðstaða – Salerni.

Landslag og jarðfræði

Viðey er stærsta eyjan í Kollafirði og setur mikinn svip á landslag svæðisins. Eyjan er rúmlega 1,6 km2, um 3 km löng og um 700 metrar þar sem hún er breiðust. Viðey skiptist í tvo hluta, Vesturey í norðri og Heimaey í suðri, sem eru tengdar með mjóu eiði. Hæstu punktar eyjunnar eru Heljarkinn og Sjónarhóll á Heimaey, um 32 metrar yfir sjávarmáli.

Í Viðey er að finna leifar af gamalli megin eldstöð sem kennd er við eyjuna. Eldstöðin var virk fyrir um 2 – 3 milljónum ára og liggur öskjuriminn um sunnanverða Heimaey og yfir í Sundagarð. Þar er að finna bæði móberg, kubbaberg og fagurstuðluð innskot til dæmis í Eiðisbjargi. Norðanverð Heimaey og Vesturey  er þakin Reykjavíkurgrágrýtinu sem rann fyrir u.þ.b 200 þúsund árum. Við ísaldarlok, fyrir um 12-13 þúsund árum, var Viðey að öllu leyti undir sjó. Sjá má minjar um hærri sjávarstöðu vestast á Eiðinu þar sem er malarkenndur skeljasandur.

Gróðurfar og dýralíf

Viðey er mjög grösug og eru graslendi og grösugar mýrar algengustu gróðurlendin á eynni. Votlendi hefur að miklu leyti verið ræst fram við gerð túna og beitarlands milli 1930 og 1940, en flestir skurðir eru nú grónir og upprunalegt votlendi að endurheimtast víða. Gulstör, mýrastör, hófsóley og engjarós eru algengar mýrlendistegundir. Fallegur fjörugróður er víða á eyjunni, einkum við Eiðið þar sem tegundir eins og hrímblaðka, fjörukál, baldursbrá og blálilja mynda fallegar breiður. Sæhvönn finnst einnig í eynni. Kúmen er óvenju algengt í eynni en það var flutt þangað til ræktunar en hefur nú víða dreift sér meðfram stígum og er vinsælt hjá áhugafólki um matargerð að koma í Viðey snemma á haustin og tína kúmenfræ.

Fuglalíf er mjög fjölbreytt í Viðey enda eyjan stór og friðsæl og kjörlendi margbreytt. Æðarfuglar verpa víða á eynni og hefur þeim fjölgað á síðustu árum. Aðrar algengar varptegundir eru fýll, grágæs, hrossagaukur, sendlingur og tjaldur. Margar aðrar tegundir eru reglulegir gestir og verpa að staðaldri svo sem kría og ýmsar máfategundir, hrafn, starri og fleiri spörfuglar og ýmsar anda- og vaðfuglategundir.

Saga

Fornleifarannsóknir benda til þess að byggð hafi verið í Viðey á 10. öld en elstu rituðu heimildir eru frá 12. öld. Þorvaldur Gissurarson keypti Viðey snemma á 13. öld  og stóð að stofnun Viðeyjarklausturs sem var vígt árið 1226 og tilheyrði lengst af Ágústínusarreglunni. Klaustrið varð með tíð og tíma með ríkari klaustrum á landinu og átti yfir 100 jarðir. Árið 1537 kom kirkjuskipan frá Kristjáni Danakonungi og var þá klaustrinu lokað.

Skúli Magnússon landfógeti kom að mikilli endurreisn Viðeyjar sem stórbýlis um miðja 18. öld. Lét hann reisa Viðeyjarstofu sem var fullgerð 1755 og er elsta steinhús á Íslandi. Þá lét hann byggja steinkirkju hjá Viðeyjarstofu sem var vígð 1774, er næstelsta kirkja landsins en með elstu innréttingarnar. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson dvöldu hjá Skúla Magnússyni í Viðey er þeir unnu að Ferðabók sinni. Skúli endurvakti æðardúnstöku og gerði tilraunir með skógrækt og akuryrkju.

Þeir feðgar Ólafur Stephensen stiftamtmaður og Magnús Stephensen dómstjóri ráku blómlegt bú í Viðey í kjölfar Skúla. Magnús rak prentsmiðju í Viðey frá 1819-1844.

Árið 1909 tók hið svokallaða Milljónafélag yfir rekstur Viðeyjar og byggðu upp allmikið af mannvirkjum á austurenda eyjunnar, Sundbakka. Þar voru reistar tvær bryggjur fyrir stór skip, ýmis fiskvinnsluhús og híbýli fyrir starfsfólk. Plássið var kallað Viðeyjarstöð og þar voru um 20 hús. Byggðin var rifin að öllu leyti við upphaf síðari heimsstyrjaldar en húsgrunnar og fleiri vegsummerki má enn sjá víða við Sundbakka.

Búskapur lagðist endanlega af í Viðey árið 1970 en í kjölfarið jukust vinsældir Viðeyjar sem útivistarsvæði fyrir Reykvíkinga og árið 1986 opnaði veitingaskáli við Áttæringsvör.

Menning og listir

Í Viðey má sjá tilkomumikil útilistaverk. Þar er verkið Áfangar eftir bandaríska myndhöggvarann Richard Serra hvað mest áberandi. Um er að ræða níu súlnapör úr stuðlabergi sem standa dreift um Vesturey. Verkið var sett upp árið 1990.

Friðarsúlan í Viðey er ljóslistaverk sem er hugsað sem leiðarljós fyrir heimsfrið. Það er listakonan fræga Yoko Ono sem hannaði friðarsúluna og er kveikt á súlunni á afmælisdegi eiginmanns hennar, John Lennon, 9. október á hverju ári og er kveikt á súlunni til 8. desember, sem er dánardagur Lennons. Einnig er kveikt á súlunni yfir jól og áramót, á afmælisdegi Yoko Ono 18. febrúar og á vorjafndægrum. Listaverkið var vígt þann 9. október 2007.

Heimildir

Haukur Jóhannesson, Kristbjörn Egilsson og Ævar Petersen. 1988. Náttúrufar Viðeyjar. Skýrsla unnin af Náttúrufræðistofnun Íslands fyrir Reykjavíkurborg.

Páll Líndal. 1988. Sögustaður við Sund – 3. bindi R-Ö. Örn og Örlygur, Reykjavík.

http://borgarsogusafn.is/is/videy