Fyrir austan og sunnan Landakotskirkju er almenningsgarður sem er að hluta til leifar af túni gamla Landakotsbýlisins. Þar er nú með stærri og opnari útivistarsvæðum Miðbæjarins og fallegt útsýni yfir miðborgina. Garðurinn stendur við Túngötu í norðri, Hólavallagötu í austri og Hávallagötu í suðri.
Aldur: Landakotstún er fornt tún. Fyrst er gert ráð fyrir því sem opnu svæði í skipulagi Reykjavíkur árið 1926.
Samgöngur:
Bílastæði við Túngötu. Gjaldskylda virka daga frá 10-18 og laugardaga frá 10-16.
Strætóleiðir: 1-3-6-11-12-13-14. Stöðvar: Hávallagata (leið 13) – Ráðhúsið.
Þar er að finna: Garðyrkja – Bekkir – Tún – Leiksvæði – Merkilegar byggingar – Útsýnisstaður.
Saga:
Landakot var hjáleiga Reykjavíkurbýlisins og er búsetu þar fyrst getið 1548.
Kaþólska trúboðið á Íslandi eignaðist jörðina Landakot árið 1860 og byggði söfnuðurinn þar litla kirkju 1897. Núverandi kirkja var tekin í notkun árið 1929.
Gert var ráð fyrir að Landakotstúnið fengi að vera óáreitt í skipulagi Reykjavíkur árið 1926 þrátt fyrir að svæðið þætti mjög ákjósanlegt byggingarsvæði.
Um miðja 20. öldina var lögð gangstétt þvert yfir túnið og úrbætur gerðar á grasþökum. Var þá byrjað að líta á svæðið sem almenningsgarð og allar hugmyndir um að byggja á túninu lögðust af. Garðyrkja á svæðinu hófst þó ekki fyrr en á 9. áratug aldarinnar.
Heimildir:
Bragi Bergsson. 2012. Almenningsgarðar á Íslandi. Ritgerð til MA-prófs. Háskóli Íslands, Hugvísindasvið.
Nikulás Úlfar Másson og Margrét Jónsdóttir. 1994. Byggingarsaga Landakotsreits og nágrennis. Minjasafn Reykjavíkur, Skýrsla 42, Reykjavík.
Ljósmynd: Bragi Bergsson.