Eiríksgata 3
101 Reykjavík

Sími: 551 3797
Farsími: 8983913
Netfang: lej@lej.is
Veffang: www.lej.is

Opið alla daga nema mánudaga kl. 10.00 -17.00.

Aðgangseyrir

Fullorðnir:   kr. 1000
Lífeyrisþegar:   kr. 500
Nemendur með ISIC-kort:    kr. 500

Börn og unglingar yngri en 18 ára,          Ókeypis.
Nemendur í fylgd kennara
Nemendur í Listaháskóla Íslands
Félagar í ICOM
Félag ísl. safnmanna og SÍM

Leiðsögn

Tekið er á móti hópum eftir samkomulagi. Nánari upplýsingar um mótttöku hópa: lej@lej.is og í síma 8983913.

Saga safnsins

Árið 1914 endurtók Einar boð sitt um gjöf verka sinnar til íslensku þjóðarinnar með sömu skilyrðum og áður. Í það skipti var boð hans samþykkt og um haustið kom hann ásamt Önnu Jörgensen unnustu sinni til Íslands. Hann  hóf undirbúning byggingar safnsins og var í fyrstu boðin lóðin sem Þjóðleikhúsið stendur á við Hverfisgötu sem hann taldi of þrönga fyrir safnið og sá framtíðarlóð fyrir það á Skólavörðuholti sem þá var óbyggt. Í fyrstu leitaði hann til Guðjóns Samúelssonar nema í byggingarlist, síðar húsameistara ríkisins, sem þá starfaði í Reykjavík. og gerði hann uppdrátt að safnbyggingu með sýningarsal,  vinnustofu og íveruherbergi sumarið 1915 sem sendur var borgarstjóra í ársbyrjun 1916. Húsið er einnar hæðar með aðalinngangi fyrir miðju og er miðhluti hússins framdreginn og hærri en húsið að öðru leyti. Anddyri er auk þess framdregið og fletir beggja vegan dyra prýddir fléttuskrauti. Yfir dyrum er rúm fyrir höggmynd. Þrír stórir gluggar eru til beggja hliða. Hreinir fletir þar sem láréttar og lóðréttar línur er ráðandi einkenna bygginguna. Útlit hennar á um margt skylt við framsækna byggingarlist um aldamótin 1900 og minnir á Sezessionsbyggingu austurríska arkitektsins J.M. Olbrich í Vínarborg frá 1897-1898 sem Einar hefur vafalaust séð. Þeir Einar og Guðjón sáu báðir safnið fyrir sér á Skólavörðuholti ásamt öðrum opinberum byggingum, svo sem söfnum, háskóla og kirkju.

Það slitnaði upp úr samstarfi Einars og Guðjóns og til liðs við sig við hönnun hússins fékk Einar nafna sinn Einar Erlendsson, aðstoðarmann Rögnvalds Ólafssonar byggingarráðunautar heimstjórnarinnar, og saman undirituðu þeir nafnar uppdrætti að safnhúsi í júní 1916. Þann 15. júlí sama ár, fékk Stjórnarráð Íslands leyfi til að reisa hús úr steinsteypu yfir verk Einars í Skólavörðuholti fyrir austan framlengingu Frakkastígs á lóð sem bæjarstjórnin hafði samþykkt að láta af hendi undir húsið. Húsið sem þeir nafnar höfðu teiknað í sameiningu var mun stærra en fyrri tillaga. Var tvær hæðir í stað einnar, en sem fyrr skyldi aðalinngangur vera fyrir miðju og miðhlutinn framdreginn og upphækkaður. Í húsinu skyldi vera sýningarsalur og vinnustofa sem og íbúð listamannsins og eiginkonu hans. Heilir fletir og ljóðréttar línur ljá húsinu festu og þyngd. Skyldleiki við módernískar byggingar á Vesturlöndum um og eftir aldamótin 1900 er augljós. Bygging hússins hófst árið 1916 og var hornsteinn þess lagður í október það ár.

Haustið 1921 hafði verkum Einars verið komið fyrir í sýningarsal á annarri hæð safnbyggingarinnar. Á jarðhæðinni hafði hann vinnustofu og þar var líka hluti íbúðar þeirra hjóna, en í turninum var rúmgóð setustofa ásamt litlum stofum og svefnherbergjum beggja vegna miðjugangs. Innrétting var í megindráttum í samræmi við ytra útlit hússins þar sem samhverf skipan og hreinar, lóðréttar línur vour ráðandi. Í sýningarsal var verkum á háum stöpum raðað út fá miðju salarins og þess gætt að jafnvægi ríkti milli helminga. Beggja vegna inngangs í salinn voru háir stöplar sem nokkurs konar útverðir og innar í salnum blöstu við enn hærri og stærri stöplar undir verkum sem Einar hafði séð fyrir sér á almannafæri. Stíll hússins átti ekki sinn líka í byggingum hér á landi enn sem komið var og bar það með sér að Einar hefur hrifist af róttækum straumum í hönnun húsa og húsbúnaðar snemma á síðustu öld.

Safnið var opnað á Jónsmessudag 23. júní árið 1923 og er fyrsta listasafnið sem opnað var almenningi hér á landi. Á árunum 1936-37 var byggt við austurenda hússins og við vesturenda þess snemma á 5. áratug síðustu aldar. Þau Einar og Anna bjuggu í safnhúsinu fram yfir stríð og þar hafði Einar vinnuaðstöðu á jarðhæð alla tíð. Þau Anna höfðu auk þess íbúð í minna húsi sem hafði verið reist í garði safnsins rétt eftir stríð og þar bjó Anna eftir andlát Einars.